Um mig

Um Mig

Velkomin. Ég setti upp þessa vefsíðu því mig langaði til að koma inn í þá umræðu sem verið hefur og kemur reglulega upp varðandi notkun stera og annarra frammistöðubætandi efna í líkamsrækt. Það virðist sem notkun stera sé orðin algengari, ekki bara hjá fólki sem stundar keppnissport, heldur líka hjá almenningi sem stundar líkamsrækt. Samkvæmt umræðum sem skapast hafa virðist sem notendur séu orðnir yngri og þá sérstaklega yngri karlmenn og unglingsspiltar. 

Mig langaði til að leggja mitt af mörkum til að þess að hvetja fólk, á öllum aldri og báðum kynjum til þess að stunda reglulega heilsu- og líkamsrækt án þess að nota ólögleg frammistöðubætandi efni til að auka árangurinn. 

Mig langar líka til að deila margra ára persónulegri reynslu minni af því að glíma við og lifa með sjúkdómunum sykursýki týpu 2, sáraristilbólgu og astma. Mín nálgun hefur verið að láta þessa sjúkdóma ekki stjórna lífi mínu. Ég stjórna lífi mínu en geri það með tilliti til þessara sjúkdóma. Ég læt þá hins vegar ekki ákveða hvað ég geri eða hvernig og ég hef komist að því að heilbrigður lífstíll er lykilatriði og hreyfing hefur fyrir mig verið ein áhrifaríkasta leiðin til að halda sjúkdómunum niðri og auðvelda mér daglegt líf. 

Ég ætla að leyfa fólki að kynnast mér og minni sögu og hvers vegna ég læt þetta málefni mig varða. Um leið vil ég vera fyrirmynd fyrir aðra og sýna að það er vel hægt að ná góðum árangri án þess að að nota ólögleg efni og til lengri tíma mun skynsamlegra að hafna slíkum efnum. Ég ætla jafnframt að deila minni reynslu, miðla af þekkingu minni og sýna þeim sem hafa áhuga sannleikann á bak við það hvað þarf til þess að ná árangri og hvernig ég hef kosið að gera hlutina. 

Það er von mín að þessi vefsíða geti hvatt fólk á öllum aldri til að nálgast heilsu- og líkamsrækt með jákvæðu og skynsömu hugarfari og fái okkur fullorðna fólkið til að hugsa um hvernig fyrirmyndir við viljum vera fyrir unga fólkið. Sérstaklega vil ég hvetja unga fólkið okkar til þess að velja lífstíl án ólöglegra efna, hvort sem það eru sterar eða önnu efni. 

Ólögleg efni í heilsurækt

Í starfi mínu sem einkaþjálfari legg ég áherslu á að kenna fólki aðferðir til þess að byggja upp vöðvamassa og styrk án þess að not stera eða önnur ólögleg eða óæskileg efni. Í þessu starfi kynnist ég reglulega nýju fólki sem hefur misjafna reynslu af því að stunda líkamsrækt eða íþróttir og hefur jafnfram óíkar skoðanir á því að nota efni til að bæta árangurinn, sum hver ólögleg. 

Fyrir mér skiptir máli að huga að því hvað við erum að gera, hvort það sé þess virði og hvort við höfum raunverulega þörf fyrir það. Að nota stera eða önnur efni til að bæta árangur er að mínu mati eitthvað sem engin "venjulegur" einstaklingu ætti að þurfa og fórnarkostnaðurinn gæti verið meiri en viðkomandi ræður við og stundum verulega skaðlegur. 

Sjálfur nota ég ekki stera eða ólögleg eða óæskileg frammistöðubætandi efni í minni líkamsrækt. Á bak við þessa fullyrðingu þarf að vera innistæða og mér finnst skipta öllu máli að vera alveg heiðarlegum með það.  

Ég er stundum spurður að því hvort ég sé að nota stera eða önnur efni sem mundu flokkast sem ólögleg. Ég tek því ekkert illa að vera spurður að því og verð ekkert móðgaður, svara bara heiðarlega. Ef eitthvað er, að þá lít ég á það sem ákveðið hrós, fólk er þá væntanlega að spyrja vegna þess að árangur minn er eitthvað sem sumir telja að sé erfitt að ná án slíkra efna.

Það er engin innistæða fyrir því sem ég segi nema ég sé heiðarlegur og segi satt og rétt frá.

Svo áður en við höldum áfram að þá ætla ég að svara þessari spurningu. - Hef ég notað stera eða önnu ólögleg efni?

Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega já! Fyrir þá sem vilja svo heyra langa svarið að þá viðurkenni ég fúslega að hafa prófað stera í einn mánuð þegar ég var 19 ára gamall. Það var veturinn 1999-2000 sem ég fékk mánaðarskammt af sterum í töfluformi frá þáverandi vinnufélaga. Ég fékk lauslegar leiðbeiningar um hvernig ég átti svo að nota töflurnar. Í raun vissi ég ekkert hvað ég var með í höndunum annað en það sem mér var sagt að væri. Þennan mánuð sem ég notaði sterana reyndi ég að stunda einhverjar lyftingar en ég get sagt það alveg hreinskilnislega að ég æfði hvorki markvisst né reglulega.

Þetta var í fyrsta og eina skiptið á ævinni sem ég hef nokkurn tíma notað ólögleg efni, í mínu tilfelli voru það sterar. Eftir þennan eina mánuð fyrir tæpum 20 árum hef ég aldrei notað nein ólögleg efni, sama hvaða nafni þau nefnast. 

Þetta er öll mín reynsla af ólöglegum efnum. 

Ég tek það fram að ég er alls ekki að ráðast á þá sem nota stera eða önnur frammistöðubætandi ólögleg efni í íþróttum. Ég vil bara vekja athygli á því að það er hægt að sleppa því og ná góðum árangri án slíkra efna og helst hvetja alla til að hafna slíkum efnum. 

Forvarnir

Sem faðir þriggja stráka stráka fæddir, 2001, 2003, 2007,  ára að þá hefur þetta mál verið mér hugleikið. Það virðist færast í aukana að notkun á sterum sé að aukast hjá fólki sem stundar líkamsrækt og þá sérstaklega hjá ungum karlmönnum. Mér finnst þetta vera mjög slæm þróun og ég sem faðir vill aldrei sjá börnin mín feta þessa leið að nota slík efni. 

Besta leiðin til þess að vonandi koma í veg fyrir að fólk og sérstaklega ungt fólk leiðist út í að prófa þessi efni er að vera þeim fyrirmynd. Þess vegna finnst mér líka skipta máli að fullorðnir leiði hugann að því hvernig fyrirmyndir þeir vilja vera fyrir ungt fólk og sérstaklega þeir sem eru foreldrar. 

Ólafur Geir Ottósson 2019  |  www.olafurgeir.is  |  olafur@nstf.is

This site was designed with the
.com
website builder. Create your website today.
Start Now